Til stendur að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Per Stig Møller utanríkisráðherra muni tilkynna á blaðamannafundi eftir hádegi í dag að verulega verði fækkað í herliði Dana í Írak, samkvæmt upplýsingum Ritzau-fréttastofunnar. Fréttastofan greinir ekki frá því hvaðan hún hefur þessar upplýsingar en Tony Blair, forsætisráðherra Breta, mun halda blaðamannafund á nákvæmlega sama tíma þar sem talið er að hann muni tilkynna mikla fækkun í herliði Breta í Írak.
Boðaður hefur verið blaðamannafundur með dönsku ráðherrunum klukkan 13:30 í dag að dönskum tíma en ekki hefur verið gefið upp opinberlega um hvað verður fjallað á þeim. Samkvæmt heimildum Ritzau mun Rasmussen hins vegar kynna áætlaða heimkvaðningu danskra hermanna frá Írak.
470 danskir hermenn eru nú í Írak, þar af 415 í Basra í suðurhluta landsins og eru þeir undir yfirstjórn breska hersins. Sex danskir hermenn hafa fallið í Írak frá árinu 2003.