Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Prodis

Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Romanos Prodis, forsætisráðherra Ítalíu, en Prodi baðst lausnar eftir að ríkisstjórn hans tapaði mikilvægri atkvæðagreiðslu í efri deild þingsins er varðaði utanríkisstefnu landsins. Forsetinn fól Prodi að fara með embætti forsætisráðherra til bráðabirgða þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

Prodi, sem verið hefur við völd í níu mánuði, fór beint í forsetahöllina eftir að hafa haldið neyðarfund með ríkisstjórn sinni.

Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, mun halda fund með leiðtogum stjórnmálaflokkanna á morgun til þess að ræða framhald mála. Aðstoðarmenn Prodis sögðust ekki útiloka að Giorgio Napolitano, forseti landsins, myni fela Prodi að reyna að mynda nýja ríkissjtórn.

Ríkisstjórn Prodis var klofin í afstöðu sinni gagnvart stríðinu í Afganistan og hvað varðar tengsl Ítalíu við Bandaríkin. Mið-vinstristjórn Prodis náði ekki að tryggja sér nægilega mörg atkvæði til stuðnings utanríkisstefnu stjórnvalda.

Samkvæmt stjórnarskránni er ekki nauðsynlegt fyrir Prodi að láta af embætti vegna málsins. Massimo D´Alema, utanríkisráðherra landsins, sagði hinsvegar áður en gengið var til atkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin ætti að segja af sér ef hún myndi ekki ná að tryggja sér stuðning meirihlutans hvað varðar utanríkisstefnuna.

Prodi sést hér ganga af fundinum sem hann átti með …
Prodi sést hér ganga af fundinum sem hann átti með forseta Ítalíu í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert