Larijani varar við fljótfærnislegum og hættulegum ákvörðunum

Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkudeilunni, sagði eftir fund inn með Mohammed elBaradei, yfirmanni Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar AEA í Vínarborg í gær að einungis væri hægt að leysa deiluna með samningaviðræðum. Þá sagði hann Írana geta lagt fram sannanir fyrir því að kjarnorkuáætlun þeirra miði einungis að nýtingu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þá varaði hann við fljótfærnislegum og hættulegum ákvörðunum í málinu en í gær var greint frá því að Bandaríkjaher hefði útbúið umfangsmikla áætlun um hugsanlegar loftárásir á Íran.Ný skýrsla stofnunarinnar um kjarnorkumál Írana verður birt í dag og er talið fullvíst að í henni komi fram að Íranar hafi hunsað þann 60 daga frest sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna veitti þeim til að hætta auðgun úrans.

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti lýsti því yfir í gær að vildi Vesturlönd að Íranar hætti auðgun úrans ættu þau að gera slíkt hið sama. Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins í Washington, vísaði tilmælum hans á bug í gær og kvaðst ekki taka þau alvarlega. “Haldið þið að þetta sé raunverulegt tilboð?” sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert