Sumar hugmyndir eru svo augljósar að enginn virðist fá þær. Norðmaðurinn Egil Sletteng hefur nú sótt um einkaleyfi á að prenta auglýsingar á auglýsingastaði sem enn eru alveg ónýttir, nefnilega á salernispappír.
Sletteng hefur fengið styrk frá norska ríkinu til að þróa hugmyndina, en nú leitar hann fjárfesta sem reiðubúnir eru til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, og segist þurfa til þess andvirði um 16,5 milljóna íslenskra króna.
Miklir möguleikar eru taldir liggja í auglýsingum á salernisrúllum, en um 27.000 slíkar seljast í landinu á degi hverjum. Þar fyrir utan má svo bæta við eldhúsrúllum, en Norðmenn kaupa nærri 50 milljónir slíkra á ári hverju.