Tveir sirkustrúðar skotnir til bana í Kólumbíu

Tveir sirkustrúðar voru skotnir til bana þegar þeir voru að taka þátt í sýningu í borginni Cucuta í austurhluta Kólumbíu. Að sögn lögreglu stökk árásarmaðurinn inn á sviðið og hóf að skjóta. Hann náði svo að flýja af vettvangi.

Kólumbískir fjölmiðlar segja að áhorfendur, sem voru um 20 talsins og flestir börn, hafi í fyrstu haldið að skotárásin hafi verið hluti af sýningunni, en annað hafi komið á daginn þegar í ljós kom að mennirnir tveir höfðu verið myrtir. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Þekktur trúður, sem gekk undir nafninu Pepe, var einnig skotinn til bana af óþekktum byssumann í Cucuta á síðasta ári.

Ekki liggur fyrir hver ástæðan að baki morðunum er að sögn lögreglu. Fjölmiðlar í Kólumbíu hafa haldið því fram að fleiri en einn árásarmaður séu viðriðnir morðin.

Annar trúðanna var skotinn í höfuðið þegar hann var að sýna á sviðinu, en um klukkustund var þá liðin af kvöldsýningu Circo del Sol.

Hinn trúðurinn, sem var 18 ára gamall, var síðan skotinn er hann stóð við miðasöluna að sögn kólumbíska dagblaðsins La Opinion.

Farandsirkusinn, sem þeir tilheyrðu, hafði komið sér fyrir í úthverfi Cucuta 10 dögum fyrir árásina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert