Bandarískir fjölmiðlar undrast viðbrögð ráðamanna við ákvörðun Breta

Breskir skriðdrekar á götu í Basra í suðurhluta Íraks.
Breskir skriðdrekar á götu í Basra í suðurhluta Íraks. AP

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa sett fram ákveðnar efasemdir um jákvæða túlkun George W. Bush Bandaríkjaforseta á þeirri ákvörðun breskra og danskra stjórnvalda að fækka verulega í herliðum sínum í Írak. „Snúðu því hvernig sem þú vilt. Ákvörðun Tony Blair, forsætisráðherra Breta, getur ómögulega talist góð tíðindi fyrir Bush forseta hvorki hernaðarlega né stjórnmálalega,” segir í leiðara dagblaðsins New York Times.

Dagblaðið The Times tekur í sama streng og segir að svo virðist sem Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna sé í enn minni tengslum við raunveruleikann en forsetinn en Cheney sagði í gær að brottkvaðning breskra hermanna sýndi að hlutirnir gengu nokkuð vel í ákveðnum hlutum Íraks. „Hvort sem það er Basra með færri breska hermenn eða Bagdad með fleiri bandaríska hermenn þá er ekki hægt að segja að neitt gangi vel í Írak,” segir í leiðara blaðsins.

Þá segir í leiðara Washington Post að yfirlýsingar breskra og danskra ráðamanna hafi riðið yfir Hvíta húsið á versta tíma vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram um Íraksstríðið á Bandaríkjaþingi.

Blair tilkynnti í gær að fækkað yrði í breska herliðinu í Írak úr 7.200 hermönnum í 5.500 á næstu mánuðum og jafnframt tilkynntu stjórnvöld í Danmörku að mestallur herafli þeirra yrði kallaður heim frá Írak í ágúst. Stutt er hins hins vegar síðan George W. Bush Bandaríkjaforseti ákvað að senda 21.500 bandaríska hermenn til landsins til viðbótar við þá sem fyrir eru í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert