Tony Blair, forsætisráðherra Breta, staðhæfði í morgun að engin áform séu uppi um það á Vesturlöndum að gera árás á Íran. Þá sagðist hann ekki líta svo á að slíkt væri réttlætanlegt. „Það er aldrei hægt að sjá allar aðstæður fyrir en þar sem ég sit hér nú og tala við þig þá get ég fullyrt að Íran er ekki Írak,” sagði Blair í útvarpsviðtali sem sent var út á BBC í morgun. „Ég veit ekki til þess að verið sé að undirbúa árás á Íran enda vinnur fólk nú að því að finna pólitíska lausn á deilunni.”
Blair sagðist ekki vita til þess að nokkur maður í Washingon væri að undirbúa hernaðaraðgerðir gegn Íran og neitaði því að nokkuð væri hæft í sögusögnum um að stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hefði hvatt yfirvöld í Ísrael til að gera loftárásir á kjarnorkuvinnslustöðvar Írana.