Íranar tilkynntu í morgun, að þeir hefðu skotið flutningaeldflaug út í geim en í eldflauginni væri ýmiss útbúnaður, ætlaður til rannsókna. Þarlendir ráðamenn veittu ekki frekari upplýsingar um búnaðinn og litlar upplýsingar um geimskotið en Mohsen Bahrami, yfirmaður flugrannsóknastofnunar landsins, sagði að undirbúningur geimskotsins hefði verið í samræmi við alþjóðlegar reglur.
Bahrami sagði, að sérfræðingar stofnunarinnar og landbúnaðarrannsóknarstofnunar hefðu smíðað eldflaugina og farminn.
Íranar hafa undanfarin ár lagt áherslu á geimrannsóknir en írönsku-rússnesku gervitungli var árið 2005 komið á braut um jörðu með rússneskri eldflaug. Var þá sagt að tunglið væri fjarskiptahnöttur og rannsóknartæki.
Íranar eiga í hörðum deilum við alþjóðasamfélagið vegna kjarnorkuáætlunar sinnar. Sameinuðu þjóðirnar hafa krafist þess að Íranar hætti að auðga úran en Bandaríkjamenn og fleiri ríki fullyrða að Íranar stefni að því að smíða kjarnorkuvopn. Íranar segja hins vegar að kjarnorkustarfsemi þeirra sé eingöngu í friðaamlegum tilgangi.