Utanríkisráðherrar sjö múslímaríkja kölluðu í dag eftir diplómatískri lausn í deilunni um kjarnorkuáætlanir Írana, þar sem ágreiningurinn væri kominn á hættustig með vangaveltum um það hvort stríð brjótist út milli Bandaríkjanna og Írans. Ráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega ályktun þessa efnis þar sem þeir sátu saman fund í borginni Islamabad í Pakistan.
Ríkin fyrrnefndu eru Egyptaland, Indónesía, Jórdanía, Malasía, Pakistan, Sádí-Arabía og Tyrkland. Khurshid Kasuri, utanríkisráðherra Pakistans, las upp ályktunina að fundi loknum. „Það skiptir höfuðmáli að leyst verði úr öllum ágreiningi með viðræðum og alls ekki valdi,“ segir þar. Róa verði niður ástandið við Persaflóa þar sem spennan sé mikil fyrir.