Forfaðir aðskilnaðarsinna talinn eigandi langafa mannréttindafrömuðar

Strom Thurmond (t.v.) og Al Sharpton.
Strom Thurmond (t.v.) og Al Sharpton. Reuters

Al Sharpton, prestur og þekktur baráttumaður fyrir mannréttindum í Bandaríkjunum, hefur farið fram á DNA-próf til að skera úr um hvort langafi hans, sem var þræll, hafi verið í eigu forföður öldungadeildarþingmannsins og aðskilnaðarsinnans Strom Thurmond sem fallinn er frá. Thurmond barðist gegn afnámi aðskilnaðarstefnunnar í Bandaríkjunum árið 1957 með lengsta málþófi öldungadeildarþingmanns fyrr og síðar.

Talsmaður Sharpton, Rachel Noerdlinger, staðfesti í dag að Sharpton hefði ákveðið að fá skorið úr þessu með DNA-prófi. Sharpton bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 1948 og þá sem aðskilnaðarsinni. Sharpton sóttist eftir því að verða forsetaefni demókrata árið 2003 en studdi síðar John Kerry, sem bauð sig fram til forseta fyrir demókrata.

Sharpton segir uppgötvun sína, að langafi hans hafi tilheyrt forföður Thurmond, vera eitthvert mesta áfall lífs síns. Langafi hans, Coleman Sharpton, hafi verið í eigu Juliu Thurmond en afi hennar var langalangafi Strom Thurmond. Coleman Sharpton fékk frelsið síðar á ævinni. Ættfræðingar komust að þessu fyrir Al Sharpton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert