Erindrekar sex ríkja, hittast í Lundúnum í dag til að ræða aðgerðir gegn Írönum vegna tregðu þeirra til að láta af kjarnorkuáætlun sinni. Frestur Írana sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu gefið þeim er runninn út, en Þmahmoud Ahmadinejad, forseti Írans sagði í gær að þarlend stjórnvöld hefðu engin áform uppi um að breyta áætluninni.
Líkti forsetinn kjarnorkuáætluninni við lest, sagði hana á einstefnu-spori og að ekkert svigrúm væri til að bremsa eða snúa við. Íranar hins vegar neita því að til standi að smíða kjarnavopn.
Það eru fastafulltrúarnir fimm í öryggisráði SÞ sem hittast í dag, Kínverjar, Rússar, Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar auk Þjóðverja. Verða á fundinum rædd næstu skref í þá átt að fá Írana ofan af áætlun sinni, en líklegast verður þar um frekari viðskiptaþvinganir að ræða og hugsanlega ferðabann á aðila sem tengjast kjarnorkuáætlun Írana.
Bandaríski utanríkisráðherrann, Condoleezza Rice, sagði í gær að Bandaríkjamenn myndu halda beinar viðræður við Írana ef þeir létu af áætluninni. En Bandaríkjamenn hafa hingað til alfarið hafnað slíkum viðræðum. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, varaði hins vegar við þvi um helgina að hernaðaraðgerðir væru einn möguleikinn í stöðunni ef Íranar héldu áfram að ögra Vesturlöndum.