Lögreglan í Ósló stendur næsta ráðþrota gagnvart aukinni glæpatíðni í borginni, og nær nú aðeins að leysa eitt af hverjum fimm málum sem tilkynnt eru til hennar. Gagnrýnt hefur verið að borgarbúar þurfi að reiða sig á einkarekin öryggisfyrirtæki til að tryggja öryggi sitt.
Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.
Samkvæmt blaðinu hefur ekkert land í heiminum hlutfallslega jafn fáa lögreglumenn og Noregur, og allt að 70% smáglæpa eru ekki rannsakaðir. Lögreglumönnum hefur fjölgað um 150% síðan 1960, en glæpatíðnin hefur vaxið um 700%.
Aftenposten segir ennfremur að sjö af hverjum tíu Norðmönnum telji engar líkur á að fá neina hjálp ef brotist verði inn á heimili þeirra.
Knut Storberget dómsmálaráðherra neitar því alfarið að um hættuástand sé að ræða og bendir á að lögregluumdæmið í Ósló hafi fengið 400 milljónir norskra króna í aukafjárveitingu síðan 2000. Hann var harðlega gagnrýndur þegar hann fór þess á leit að almenningur segði til um hvaða málum lögreglan ætti helst að sinna og hver ættu að fá minni forgang. Þótti sem hann hefði átt að leita leiða til að bæta aðstöðu lögreglunnar til að halda uppi lögum og reglu.