Fjárfestingasjóðurinn digri sem geymir olíugróða Norðmanna hefur enn gildnað, að því er tilkynnt var í dag, og hefur hann fest sig í sessi sem einn stærsti sjóður heims.
Sjóðurinn heitir opinberlega Opinberi eftirlaunasjóðurinn og er ætlaður til að greiða eftirlaun komandi kynslóða í Noregi.
Þarlendir fjölmiðlar bentu á í dag, að stærð sjóðsins þýði að hver einasti landsmaður eigi þar nú sem svarar rúmum fjórum milljónum íslenskra króna. Norðmenn eru tæplega 4,7 milljónir.
Frá þessu segir á fréttavef Aftenposten.
Sjóðurinn var stofnaður fyrir tíu árum og lögðu stjórnvöld þá í hann tvo milljarða norskra króna, en núna eru í sjóðnum hvorki meira né minna en 1.784 milljarðar norskra króna, að því er norski seðlabankinn greindi frá í dag.
Noregur er þriðja mesta olíuútflutningsríki heims, og mesti gasframleiðandi í Evrópu.
Sjóðurinn fjárfestir í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum, og sagði seðlabankinn í dag að vöxt sjóðsins undanfarið mætti rekja til mikillar hækkunar á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.