Neyðarástandi var lýst yfir á ítölsku eynni Stromboli í dag eftir að eldfjallið þar vaknaði til lífsins og hraun tók að flæða úr tveim nýjum sprungum. Stromboli er eitt virkasta eldfjall Evrópu, og fyrir skömmu var viðbúnaðarstig þar hækkað eftir að aukin virkni mældist í fjallinu.
Ein hrauntungan hefur þegar náð niður að sjó, en enn er ekkert sem bendir til að hætta sé á stórgosi eða hraunflóði sem gæti komið af stað flóðbylgju. Varúðarráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja öryggi íbúa eyjarinnar, sem eru um 400, en hún er einnig mjög vinsæll ferðamannastaður.