Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi, neitar því að hann hafi gert nokkuð rangt eftir að franskt dagblað, Le Canard Enchaine, birti frétt um að Sarkozy hafi fengið verulegan afslátt á íbúð sem hann keypti fyrir tíu árum síðan.
Samkvæmt frétt Le Canard Enchaine er Sarkozy ásakaður um, ásamt eiginkonu sinni, að hafa greitt að minnsta kosti þrjú hundruð þúsund evrur minna fyrir íbúð í Neuilly hverfinu í París heldur en markaðsvirði eignar á þessum stað var þegar þau hjón keyptu íbúðina árið 1997.
Blaðið, sem þekkt er fyrir rannsóknarblaðamennsku, samkvæmt frétt á vef Times, segir að upplýsingarnar um fasteignakaup Sarkozy séu hluti af greinarflokki blaðsins um eignir í eigu forsetaframbjóðendanna. Í næstu viku verðum sjónum blaðsins beint að Segolene Royal, forsetaframbjóðanda sósíalista.
Samkvæmt Le Canard Enchaine greiddi Sarkozy 876 þúsund evrur fyrir íbúðina sem er 10-35% undir markaðsvirði fasteigna í hverfinu fyrir tíu árum. Sarkozy, sem er enn bæjarstjóri í Neuilly ætlar að láta af starfi innanríkisráðherra í lok mars, um mánuði fyrir fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Sarkozy seldi íbúðina í lok síðasta árs á 1,94 milljónir evra, samkvæmt frétt blaðsins.
Sarkozy sagði eftir að fréttin birtist að hún væri tóm þvæla og ekkert annað en áróðursbragð andstæðinga hans í stjórnmálum.