Silvio Berlusconi, leiðtogi ítölsku stjórnarandstöðunnar og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, segir að mið-hægribandalag hans muni styðja ríkisstjórn Romanos Prodis í atkvæðagreiðslu varðandi Afganistan. En ítalska þingið mun brátt greiða atkvæði um hvort það eigi að verja meiri fé í að halda 1.800 manna friðargæsluliði í Afganistan til ársins 2011.
Prodi, sem er forsætisráðherra, bauðst til þess að segja af sér fyrir 10 dögum í kjölfar þess er kommúnistar í hans eigin samsteypustjórn kusu gegn stefnu hans í utanríkismálum.
Berlusconi hefur sagt að Ítalía verði að senda pólitískum stuðningsmönnum sínum augljós skilaboð, segir á fréttavef BBC.
Sumir þingmenn í samsteypustjórninni hafa hótað að sitja hjá þegar gengið verður til atkvæðagreiðslu svo koma megi mið-vinstristjórninni frá völdum.
„Við munum kjósa um endurfjármögnun verkefnisins í Afganistan sökum þess að við eru land sem verður að haga sér á alvarlegan hátt, og við verðum að senda bandamönnum okkar augljós pólitísk skilaboð,“ sagði Berlusconi.
Prodi hefur tjáð forseta Afganistans, Hamid Karzai, að Ítalir muni ekki hvika frá sínum lykilskuldbindingum.
Kommúnistaflokkarnir í samsteypustjórninni er hinsvegar enn á móti hugmyndinni og gengið verður til atkvæðis um verkefni Ítala í Afganistan þann 1. apríl nk. Að sögn fréttaskýranda BBC ríkir enn nokkur óvissa hvort Ítalir geti staðið við skuldbindingar sínar.