Maður sem þýska lögreglan hefur leitað í tengslum við morð og nauðgun á níu ára gömlum dreng er fundinn. Maðurinn, sem heitir Uwe Kolbig og er dæmdur barnaníðingur, kastaði sér fyrir sporvagn í úthverfi Leipzig í nótt. Var hann fluttur á sjúkrahús alvarlega slasaður.
Talið er að Kolbig hafi nauðgað og myrt Mitja Hofmann. Meðal gagna sem voru notuð við leitina að manninum voru myndir úr eftirlitsmyndavél úr sporvagni en við hlið drengsins sést barnaníðingurinn Uwe Kolbig. Kolbig afplánaði tvö ár í fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega á börnum árið 1998 auk þess sem hann hefur í fjórgang verið ákærður fyrir barnaníð. Talið er að Hofmann hafi hitt Kolbig á sporvagnsbiðstöð og þeir farið saman um borð í vagninn.
Myndirnar af Kolbig ásamt Hofmann voru teknar fyrir viku síðan en drengurinn hvarf þann dag á heimleið úr skóladagvist. Lík hans fannst á laugardag í garði sem Kolbig var fastagestur í.