Óeirðir blossuðu upp að nýju á Norðurbrú í Kaupmannahöfn um hálf níuleytið í kvöld og voru kveiktir þar nýir eldar, eftir að lögreglunni hafði tekist að ná nokkrum tökum á ástandinu um kvöldmatarleytið. Um klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma lögðu mótmælendurnir af stað fylktu liði í átt að Ráðhústorginu, þar sem efna á til frekari aðgerða.
Þetta kemur fram á fréttavef B.T. í kvöld. Fréttamaður blaðsins á Norðurbrú segir ástandið afar eldfimt. Lögreglan hafi síðdegis handtekið nokkra tugi þeirra mótmælenda sem verst létu og beittu sér helst við að grýta lögregluna.