Yfirvöld í Bangladess ætla að bólusetja um 24 milljónir barna yngri en fimm ára gegn lömunarveiki á morgun. Herferðin kemur í kjölfar 17 nýrra tilfella sem komið hafa upp síðan um áramót . Á morgun verða 140 þúsund heilsugæslustöðvar settar á laggirnar víða um landið og 700 þúsund sjálfboðaliðar hafa verið kallaðir til að aðstoða við framkvæmdina.
Að sögn AP fréttastofunnar munu sjálfboðaliðarnir einnig fara hús úr húsi og setja upp bólusetningarstöðvar á lesta- og umferðamiðstöðvum og öllum helstu flugvöllum landsins.