Lögregla í Kaupmannahöfn handtók alls 603 í tengslum við óeirðir, sem hófust á fimmtudag eftir að lögregla rýmdi Ungdomshuset, félagsmiðstöð sem hópur ungmenna neitaði að yfirgefa. Alls hafa 174 verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og eru margir í þeim hópi útlendingar, sem komu til Kaupmannahafnar til að leggja hústökufólkinu lið. Tiltölulega kyrrt var í borginni í gærkvöldi og nótt.
Að sögn Ritzau fréttastofunnar voru 196 manns handteknir í gærkvöldi og nótt. Gerðar voru húsleitir á 10 stöðum í Kaupmannahöfn.
Langflestir útlendingarnir eru frá Svíþjóð, Þýskalandi og Noregi en einnig eru ríkisborgarar fleiri Evrópulanda á meðal þeirra, sem sitja í gæsluvarðahaldi.
Óeirðirnar hófust eftir að lögregla ruddi Ungdomshuset, hús á Norðurbrú sem reist var úr rauðum múrsteini árið 1897. Byggingin hefur verið vinsæl menningarmiðstöð ungmenna þar sem stjórnleysingar, pönkarar og róttækir vinstrimenn hafa verið áberandi.
Húsið var upphaflega reist sem leikhús og ráðstefnumiðstöð verkalýðshreyfingarinnar. Vladimír Lenin var meðal gesta í húsinu og á síðari árum hafa listamenn á borð við Björk Guðmundsdóttur og Nick Cave haldið þar tónleika.
Kristinn söfnuður keypti húsið fyrir sex árum og á síðasta ári kynnti söfnuðurinn áform um að láta rífa húsið og reisa nýtt á lóðinni. Dómstólar fyrirskipuðu að fólk, sem hafðist við í húsinu skyldi yfirgefa það. Fólkið neitaði því og sagði að borgaryfirvöld hefðu ekkert átt með að selja húsið. Borgarstjórn Kaupmannahafnar bauð ungmennunum þá annað hús en samningar náðust ekki og því lét lögreglan til skarar skríða á fimmtudagsmorguninn.