Mörg hundruð bandarískir hermenn hafa í dag haldið inn í Sadr-borg, en þetta hverfi í Bagdad er eitt helsta vígi sjíta í Írak. Er þetta fyrsta stóra atlagan að hverfinu síðan Bandaríkjamenn hófu hertar öryggisráðstafanir í og í grennd við Bagdad í síðustu viku. Hermenn leituðu hús úr húsi en mættu engri andspyrnu.
Vopnaðir menn hliðhollir klerknum Moqtada al-Sadr (hverfið er kennt við föður hans) hafa haft hverfið algerlega á valdi sínu, en Bandaríkjamenn hafa átt í samningaviðræðum við pólitíska leiðtoga þar.
Al-Sadr hafði kvatt menn sína á brott vegna mikils þrýstings frá írösku stjórninni, en óttast var að umfangsmiklar hernaðaraðgerðir án pólitískrar heimildar myndu stefna öryggisumbótunum í tvísýnu.