Hátt í fimm milljónir Kínverja hafa ekki nægt drykkjarvatn vegna ítrekaðra þurrka af völdum óvenjumikilla hita, að því er kínverska ríkisfréttastofan Xinhua greinir frá í dag. Þurrkarnir hafa ennfremur leitt til þess að um 2,5 milljónir búpenings hefur heldur ekki nóg drykkjarvatn.
Einna verst er ástandið í Shandong-héraði í austurhluta landsins, en Shandong er næstfjölmennasta hérað Kína með 92 milljónir íbúa, og eitt helsta kornræktarhéraðið. Úrkoma þar frá í september og fram í febrúar var aðeins rúmlega 51 millimetri, eða 80% minni en á sama tíma í fyrra og hittiðfyrra.
Einnig hefur verið óvenju heitt í Sichuan-héraði í suðvesturhlutanum, en það hérað er einnig mikilvægt landbúnaðarhérað.