Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, hefur 25 prósentustiga forskot á John McCain öldungadeildarþingmann í baráttunni um að verða forsetaefni repúblíkana í Bandaríkjunum á næsta ári, samkvæmt skoðanakönnun sem tímaritið Newsweek birti í gær.
Meðal flokksbundinna repúblíkana sögðust 59% styðja Giuliani, og 34% kváðust fylgjandi McCain, sem tilkynnti formlega á miðvikudaginn að hann sækist eftir að verða forsetaefni flokksins.
Flestum félögum í Repúblíkanaflokknum er ókunnugt um afstöðu Giulianis til helstu samfélagsmála, eins og til dæmis að hann er fylgjandi fóstureyðingum og takmörkunum á skotvopnaeign. Þegar þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvort afstaða Giulianis til þessara mála gæti komið í veg fyrir að þeir styddu hann svöruðu fæstir neitandi.