Árás gæti flýtt fyrir kjarnorkuvæðingu Írana

Írönsk kona gengur fram hjá veggmynd á byggingu sem áður …
Írönsk kona gengur fram hjá veggmynd á byggingu sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna í Teheran í Íran. Reuters

Árás á Íran myndi að öllum líkindum leiða til þess að stjórnvöld þar hertu enn á kjarnorkuvæðingu sinni og kæmu sér upp kjarnavopnum. Það gæti gerst á nokkrum mánuðum. Þetta er mat Frank Barnaby, sérfræðings í kjarnorkuvísindum og kjarnavopnaframleiðslu og kemur fram í skýrslu fyrir rannsóknarmiðstöð í Oxford á Englandi.

Þar segir að þar sem ónægar heimildir eða sannanir séu fyrir umfangi kjarnorkumannvirkja Írana sé ólíklegt að hægt sé að koma í veg fyrir kjarnorkuáætlanir ríkisins. Því yrði fljótlega hægt að hefja þá vinnu á ný eftir árás og þá yrðu stjórnvöld þar enn harðari í andstöðu sinni við Vesturlönd en áður. Stuðningur við kjarnavopnavæðingu myndi aukast meðal landsmanna.

Ótti manna vex við að Bandaríkjamenn eða Ísraelar geri loftskeyta- og eldflaugaárásir á Íran vegna kjarnorkudeilunnar. Í skýrslunni segir að líklegt sé að Íranar hafi komið sér upp aðstöðu til kjarnorkuvinnslu á leynilegum stöðum. Þá sé einnig líklegt að Íranar hafi reist byggingar til blekkingar, þ.e. að önnur ríki haldi að þær séu kjarnorkumannvirki. Sky segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert