Íraskir og breskir hermenn réðust um helgina til inngöngu í byggingu í Basra þar sem öryggissveitir íraskra stjórnvalda og lögreglumenn höfðu aðstöðu. Um 30 fangar fundust í bygginguinni, þar á meðal kona og tvö börn, og greinileg ummerki voru um pyntingar og aðrar misþyrmingar. Talsmaður breska hersins segir að fimm hafi verið handteknir, þar á meðal leiðtogi dauðasveitar.
Að sögn talsmannsins leikur grunur á um að þeir sem handteknir voru hafi stundað glæpsamlegt athæfi, þar á meðal mannrán, pyntingar og morð og þær hafi einnig tekið þátt í að skipuleggja sprengjuárásir á fjölþjóðaherinn í Írak.
Ekki var ljóst, hvort þeir sem handteknir voru tengdust írösku öryggissveitunum eða hvort þeir höfðu leitað skjóls í byggingunni.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, brást ókvæða við fréttum af aðgerðunum í Basra. Fyrirskipaði hann rannsókn á málinu og lýsti því yfir, að þeim írösku sérsveitarmönnum, sem tekið hefðu þátt í þessari ólöglegu aðgerð, eins og hann orðaði það, yrði refsað.
Að sögn AFP fréttastofunnar hafa breskar hersveitir í Basra reynt að uppræta útbreidda spillingu innan öryggissveita íraksstjórnar í borginni. Herskáir sjía-múslimar hafa mikil áhrif innan sveitanna, þar á meðal liðsmenn sjía-klerksins Moqtada al-Sadrs.