Rússneski blaðamaðurinn Ivan Safronov sem skrifaði um varnarmál í viðskiptadagblaðið Kommersant lést í dag eftir að hann féll út um gluggann á stigagangi á fimmtu hæð í íbúðarhúsinu þar sem hann bjó í Moskvu. Kommersant og aðrir fjölmiðlar í Rússlandi hafa gefið í skyn að hann hafi verið myrtur fyrir gagnrýna blaðamennsku.
Í grein í Kommersant í dag segir að í rannsókn á andláti Safronov beinist að hugsanlegu sjálfsvígi en þar er jafnframt tekið fram að þeir sem þekktu hann hafni slíku alfarið.
Samstarfsmenn og ættingjar hans hafa lýst honum sem kraftmiklum og glaðlyndum manni sem hafi verið mjög ólíklegur til að fremja sjálfsmorð.
Safronov var ofursti og starfaði við rússnesku geimferðaáætlunina áður en hann gekk til liðs við Kommersant 1997. Hann vakti oft athygli yfirvalda fyrir gagnrýna blaðamennsku og var margsinnis yfirheyrður af öryggisþjónustu landsins sem grunaði hann um að hafa lekið hernaðarleyndarmálum. Safronov gat ávalt sannað að heimildir hans voru áreiðanlegar og aðgengilegar öllum.
„Einhverra hluta vegna eru það þeir blaðamenn sem eru yfirvöldum þyrnir í augum sem deyja í þessu landi,” stóð í dagblaðinu Moskovsky Komsomolets í dag. „Ivan Safronov var einn þeirra. Hann vissi margt um hið raunverulega ástand í hernum og varnarmálaiðnaðinum og hann skýrði frá því sem hann vissi,” stóð ennfremur.
Rússland er meðal hættulegustu landa fyrir blaðamenn og verða þeir sem segja frá spillingu innan hins opinbera oft fyrir árásum. Í október sem leið var Anna Politkovskaya myrt en hún hafði verið gagnrýnin á mannréttindabrot í Tjetsníu.
Samkvæmt alþjóðlegri nefnd sem situr í New York og hefur fjallað um málið voru 13 rússneskir blaðamenn myrtir með aðferðum leigumorðingja á síðasta ári og er Rússland þriðja hættulegasta land í heimi fyrir blaðamenn, næst á eftir Írak og Alsír ef tekið er mið af síðustu fimmtán árum.