Stuðningsmaður Lítvínenkó skotinn í Bandaríkjunum

Alexander Lítvínenkó veiktist eftir fund sem hann átti á veitingastað …
Alexander Lítvínenkó veiktist eftir fund sem hann átti á veitingastað í Lundúnum þann 1. nóvember. AP

Bandaríska lögreglan og alríkislögreglan (FBI) rannsaka nú skotárás sem var gerð á sérfræðing hjá rússnesku leyniþjónustu, en maðurinn hafði nýverið sakað rússnesk stjórnvöld um að eiga þátt í dauða fyrrum rússneska njósnarans Alexander Lítvínenkó.

Paul Joyal, sem er 53 ára gamall, var skotinn nokkrum sinnum þegar hann sneri heim til sín sl. fimmtudag í úthverfi Washington í Bandaríkjunum. Fram kemur á fréttavef BBC að Joyal hafi lifað árásina af en að sögn lækna er ástand hans tvísýnt.

Fréttir herma að hlutum í eigu Joyal, sem er Bandaríkjamaður, hafi verið teknir eftir árásina, en í fljótu bragði virðist sem að um tilviljanakennt rán hafi verið að ræða.

Menn velta hinsvegar vöngum yfir því hvort það hafi verið ráðist á hann sökum þess að hann tjáði sig nýverið um Lítvínenkó málið.

Lítvínenkó, sem var harður andstæðingur Valdímírs Pútíns Rússlandsforseta og rússnesku leyniþjónustunnar, lést í nóvember sl. í London eftir að honum hafði verið byrlað eitur, n.t.t. greindist geislavirkt pólóníum í líkama hans.

Hann og samstarfsmenn hans sökuðu Rússa um að hafa byrlað sér eitur vegna andstöðu hans við Pútín. Rússlandsforsetinn hefur hinsvegar vísað því alfarið á bug að hann hafi átt hlut að máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert