Lögreglan í Kaupmannahöfn sleppti í dag úr haldi úrsmiðnum Michael Woollhead sem setið hefur í varðhaldi síðan 16. janúar. Mál Woollhead hefur vakið nokkra athygli í Danmörku en hann var handtekinn eftir að hann skaut tvo menn sem hugðust ræna verslun hans. Vefsíða Ekstrabladet segir frá þessu.
Woollhead rekur verslunina Vintageure við Kompagnistræti í Kaupmannahöfn, þann 16. janúar sl. ruddust inn í verslunina þrír menn, ættaðir frá A-Evrópu og höfðu í hyggju að ræna verslunina. Woollhead brást hinn versti við, dró upp skammbyssu og skaut á mennina. Einn mannanna fékk byssukúlu í handlegg, en annar í handlegg og bak.
Þeir flýðu í kjölfarið á bifreið sem skráð var í Svíþjóð, en komust ekki langt því skömmu síðar þurftu þeir að stöðva bifreiðina og biðja nálæga vegfarendur um að kalla á sjúkrabíl. Þriðji ræninginn, sá sem ekki hlaut skotsár, flýði og er enn ekki fundinn.
Woollhead er grunaður um gróft ofbeldi og líkamsárás og morðtilraun en hann segist saklaus og ber við sjálfsvörn. Lögregluyfirvöld í Kaupmannahöfn hafa nú lokið rannsókn og því sleppt úrsmiðnum úr haldi, en enn hefur ekki verið ákveðið hvort hann verður ákærður.