Nítján ára nemi við Cambridge-háskóla í Bretlandi hefur valdið miklu uppnámi með því að birta eina af dönsku Múhameðsteikningunum í skólablaði Clare Colleges skólans. Neminn birti myndina í vikublaðinu Clareificatio er hann var gestaritstjóri þess en umrætt blað var tileinkað trúarlegum háðsádeilum. Samtök múslíma í skólanum hafa þegar fordæmt fordæmt birtinguna og nemendafélag hans og talsmaður kennara hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem birtingin er fordæmd. Þá hefur aganefnd skólans verið kölluð saman í fyrsta sinn í manna minnum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Blaðið er þriðja blaðið í Bretlandi sem birtir einhverja af dönsku Múhameðsteikningunum en áður hafa þær verið birtar í Y Llan blaði ensku biskupakirkjunnar og í Gair Rhydd skólablaði Cardiff háskóla en það síðarnefnda var innkallað tveimur tímum eftir útkomu þess og ritstjórum þess sagt upp störfum.
Danska dagblaðið Jyllands-Posten birti tólf skopmyndir af Múhameð spámanni þann 30. september árið 2005 og í kjölfarið birtu fleiri vestrænir fjölmiðlar myndirnar. Fjórum mánuðum síðar brutust út mikil mótmæli vegna málsins á meðal múslima, en samkvæmt íslömskum lögum er bannað að birta myndir af spámanninum.