Fleiri mótmælendur teknir höndum í Kaupmannahöfn

Danskir lögreglumenn sjást hér fylgjast með því þegar framkvæmdir við …
Danskir lögreglumenn sjást hér fylgjast með því þegar framkvæmdir við niðurrif Ungmennahússins hófust í gær. Reuters

Danska lögreglan handtók í dag fleiri ungmenni sem mótmælt hafa útburði hústökufólks úr Ungdomshuset í Kaupmannahöfn. Talsmaður lögreglunnar segir að 19 hafi verið handteknir í gærkvöldi fyrir ýmis brot og þá hafi sex verið handteknir í morgun fyrir að hafa kveikt í bifreið.

Talsmaður lögreglunnar segir ástandið vera mun rólegra nú en það var fyrir nokkrum dögum síðan. Hann segir hinsvegar að lögreglan muni halda sig á svæðinu og sé með sama viðbúnað og hefur verið að undanförnu. Þá segir lögreglan að búist sé við því að farið verði í þrjár nýjar mótmælagöngur í borginni síðar í dag.

Til óeirða kom þegar bera átti hústökufólkið út úr Ungdomshuset sl. fimmtudag, en húsið hefur verið athvarf fyrir ungmenni og neðanjarðarmenningu borgarinnar frá 1982.

Verktakar hófu í gær vinnu við að rífa niður húsið og héldu framkvæmdir áfram í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert