Louvre safnið í París tilkynnti í dag að opnað yrði útibú í Persaflóa. Þrjátíu ára samningur um rekstur Louvre í Abu Dhabi í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum var undirritaður af franska menningarmálaráðherranum, Renaud Donnedieu de Vabres og yfirmanni ferðamálaráðs Abu Dabi, Sultan bin Tahnoon. Að sögn AP fréttastofunnar mótmæltu franskir listunnendur því að láta þjóðargersemar úr landi fyrir olíupeninga en Frakkar munu fá um 88,6 milljarða íslenskra króna við undirskriftina.
Sýningargripirnir sem fara í nýja safnið munu ekki bara koma úr Louvre heldur einnig Georges Pompidou listamiðstöðinni og Musee d'Orsay og Versölum.
Nýja útibúið verður hýst í nýju safnahúsi sem franski arkitektinn Jean Nouvel hefur hannað og mun opna 2012.
Donnedieu de Vabres sagði að framtakið væri göfugt og væri liður í hnattvæðingu franskrar listar og menningar. Hann lofaði jafnframt að engir munir yrðu seldir úr landi.