Ástrali dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í Goa

Réttur í Goa á vestanverðu Indlandi hefur dæmt Ástralann Warner Wulf Ingo í tíu ára fangelsisvist fyrir að beita börn í ríkinu kynferðislegu ofbeldi. Ingo var fundinn sekur um samkynhneigð, kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, mannrán og um að leggja á ráðin um að fremja glæpi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Inglo flúði til Ástralíu árið 1991 eftir að lögregla í Goa kom upp um barnaklámhring sem hann tilheyrði en hann er sagður hafa átt aðild að skipulögðu og langvarandi kynferðislegu ofbeldi gegn drengjum á munaðarleysingjaheimili í borginni Fatorda. Þá er hann sagður hafa unnið náið með Freddy Peats, forsprakka hrings sem sá erlendum ferðamönnum fyrir barnungum kynlífsþrælum. Peats var talinn vera Þjóðverji en hann lést er hann afplánaði lífstíðarfangelsisdóm vegna málsins í Goa.

Samtök sem berjast gegn barnaklámi og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum segja hundruð barna í Goa búa við kynferðislegt ofbeldi af hálfu erlendra ferðamanna. Þá hafa sameinuðu þjóðirnar nefnt Goa sem einn helsta áfangastað barnaníðinga. Yfirvöld í ríkinu segja hins vegar of mikið gert úr málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert