Hergögn framleidd í þrælakistu

Um það bil eitt hundrað börn voru ekki sótt úr pössun eftir að foreldrar þeirra voru handtekin af yfirvöldum í New Bedford í Massachusetts. Fjölmennt löggæslulið handtók um 500 ólöglega innflytjendur sem störfuðu í leðurverksmiðju sem framleiðir bakpoka og öryggisvesti fyrir bandaríska herinn.

Flestir starfsmennirnir voru konur og því voru mörg börn ekki sótt í skóla og á dagvistunarstofnanir. Sögðu félagsmálayfirvöld að það hefði myndast neyðarástand í New Bedford í kjölfar áhlaupsins á verksmiðjuna.

Eigandi verksmiðjunnar, Francesco Insolia hefur verið sakaður um að reka þrælakistu til að ná sem mestum gróða út úr 6 milljarða króna samningi við herinn.

Þær konur sem eru einu umsjónarmenn barna sinna verða leystar úr haldi en það mun að sögn yfirvalda taka einhvern tíma að staðfesta framburð þeirra og aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert