Fortunat Lumu, einn æðsti yfirmaður kjarnorkurannsóknarstöðvar Lýðveldisins Kongó og aðstoðarmaður hans hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn á hvarfi mikils magns af úrani í landinu á undanförnum árum. Tshimanga Mukeba saksóknari segir mennina hafa verið handtekna í gær og að þeir séu enn í yfirheyrslum. Þá segir hann að um umtalsvert magn af úrani sé að ræða en vill þó ekki gefa upp hversu mikið magnið er. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt upplýsingum dagblaðsins Le Phare hafa rúmlega 100 úranstangir horfið auk ótilgreinds magns af efninu sem geymt var í tunnum frá kjarnorkurannsóknarstöðinni í Kinshasa á undanförnum árum.
Úran sem unnið var úr námu í Katanga í Kongó var notað í kjarnorkusprengjurnar sem Bandaríkjaher varpaði á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagazaki árið 1945. Í þakkarskyni styrktu Bandaríkjamenn síðar opnun kjarnorkurannsóknarstöðvarinnar í Kongó árið 1958. fyrst er vitað til þess að úranstöng hafi horfið þaðan á áttunda áratug síðustu aldar.