Tveir Þjóðverjar voru í dag dæmdir í fangelsi fyrir barnaníð í Kambódíu. Voru þeir dæmdir fyrir endurteknar nauðganir á ungum stúlkum. Annar mannanna var dæmdur í 28 ára fangelsi en hinn í tólf ára fangelsi.
Mennirnir voru handteknir í Kambódíu í ágúst í tengslum við áhlaup á glæpahring sem stundaði barnaníð, en þetta mun eitt skelfilegasta mál sem hefur komið upp í Kambódíu á þessu sviði í mörg ár samkvæmt fréttastofu AFP. Auk Þjóðverjanna var móðir eins fórnarlambsins handtekin og par frá Víetnam.
Lögregla fann myndbönd sem sýnir Þjóðverjana fremja ofbeldisfulla kynferðisglæpi gegn víetnömskum stúlkum sem voru allt niður í tíu ára gamlar. Að minnsta kosti eitt þúsund myndir af barnaklámi fundust í tölvu annars mannsins auk þess sem hald var lagt á kynlífsleikföng.
Þjóðverjinn sem var dæmdur í 28 ára fangelsi er 61 árs að aldri og búsettur í Berlín. Hann kastaði sér fram af svölum íbúðar sinnar í höfuðborg Kambódíu, Phnom Penh, þegar lögregla kom til að handtaka hann. Síðar reyndi hann að skera sig á púls þegar hann var á sjúkrahúsi vegna áverka sem hann hlaut við fallið.
Um tveir tugir útlendinga hafa verið handteknir og framseldir til heimalanda sinna fyrir barnaníð í Kambódíu á síðustu fjórum árum.