Gerd-Liv Valla, formaður norska alþýðusambandsins, LO, hefur sagt af sér en hún hefur verið sökuð um að hafa lagt undirmann sinn á skrifstofu LO í einelti.
Valla neyddist til að segja af sér eftir að óháð rannsóknarnefnd skilaði skýrslu í morgun þar sem hegðun hennar var gagnrýnd harðlega. Á fundi með blaðamönnum í dag sagðist Valla hins vegar ekki telja að hún hefði brotið af sér á neinn hátt. Hún hafi hins vegar ákveðið að segja af sér vegna þess álags, sem málið hafði í för með sér á fjölskyldu hennar og LO.
Deilur Valla við Ingunn Yssen, yfirmann alþjóðasamskipta LO, hafa vakið mikla athygli í Noregi undanfarnar vikur.
Gerd-Liv Valla tók við formennsku í LO árið 2001 og varð fyrsta konan til að gegna því embætti. Á undanförnum árum hefur LO lagt mikla áherslu á réttindi kvenna og baráttu gegn einelti á vinnustað og því var þetta mál hið vandræðalegasta fyrir sambandið.