Ofbeldisglæpum fjölgar í Bandaríkjunum

Morðtíðnin hefur aukist um 42,6% í Miami
Morðtíðnin hefur aukist um 42,6% í Miami AP

Ofbeldisglæpum hefur fjölgað í stærstu borgum Bandaríkjanna síðan árið 2004 og hafa glæpirnir meira en tvöfaldast í sumum borgum. Þetta kemur fram í skýrslu sem rannsóknarnefnd á vegum bandarískrar lögreglu (PERF) hefur gefið út. Í 56 stórborgum í landinu, þ.á.m. Los Angeles, Chicago, Boston og Detroit hefur ofbeldisglæpum fjölgað að meðaltali um 10%.

Chuck Wexler, yfirmaður PERF, segir tölurnar áhyggjuefni þar sem um sé að ræða talsverða aukningu á aðeins tveimur árum.

Í nokkrum borgum hefur morðum fjölgað um meira en 100%, í Orlando hefur morðum fjölgað um 188%, í Fairfax County í Virginíu um 111% og í Charleston í S-Karólínu um 130%. Í borgunum Newark, New Jersey og Orlando hefur morðtíðnin aldrei verið hærri.

Þá hefur glæpatíðnin einnig aukist í mörgum af stærstu borgum landsins. Í Miami á Flórída hefur morðum fjölgað um 42,6% , um 12% í Houston og 3,8% í Chicago.

Svo virðist sem ekki hafi tekist að halda þeirri þróun sem hófst um miðjan tíunda áratuginn, en glæpum fækkaði mikið í Bandaríkjunum um miðjan tíunda áratuginn og fram til aldamóta. Síðan hefur glæpatíðnin verið nokkuð stöðug, en hefur aukist á allra síðustu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert