Bandarískir hermenn sakaðir um að hafa myrt óvopnaða óbreytta Íraka

Bandarískir hermenn gráir fyrir járnum í Írak.
Bandarískir hermenn gráir fyrir járnum í Írak. AP

Bandarískir hermenn hófu skothríð á fjölskyldubifreið með þeim afleiðingum að karlmaður og tvær dætur hans létust, en þetta segir eiginkona mannsins. Hún segir að þau hafi verið óvopnuð.

Bandaríkjaher sendi frá sér yfirlýsingu sem staðfestir að þrír Írakar hafi látist og þrír aðrir særst í Bagdad í gær þegar ökumaðurinn hafi annaðhvort hunsað eða ekki tekið eftir merkjum hermanna um að stöðva.

„Þeir einfaldlega hófu handahófskennda skothríð á okkur,“ sagði Akhlas Abduljabbar, sem er súnníti frá Zafaraniyah, sem er suður af Bagdad. Fjölskylda hennar var á ferðinni í borginni þegar þetta gerðist.

„Þeir myrtu eiginmann minn og tvær dætur, og þá særðist þriggja ára gamall sonur minn á höfðinu. Túlkur Bandaríkjamannanna sagði okkur: „Flýjið og stöðvið ekki, þeir ætla að drepa ykkur,“ bætti hún við, en dætur hennar voru 11 og 12 ára gamlar.

Hún segir að íraskir vegfarendur hafi einnig særst í árásinni.

Fram kemur í yfirlýsingu Bandaríkjahers að ökutækið hafi ekki stöðvað þegar hermennirnir hafi gefið merki um það er bifreiðin nálgaðist eftirlitsstöð þeirra í Adhamiyah.

Þá segir að hermennirnir hafi fylgt reglum en þegar bifreiðin stöðvaði ekki þá hafi þeir neyðst til þess að stöðva hana með því að skjóta á hana með skammbyssum.

Talsmaður hersins segir málið vera í rannsókn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert