Að jafnaði skoða um 1.800 Danir dag hvern gróft barnaklám á Netinu og nú vill hægristjórnin í landinu stemma stigu við því, að sögn Jyllandsposten. Helge Sander vísindamálaráðherra segir að netþjónustufyrirtæki verði að ganga harðar fram gegn barnakláminu. Fram til þessa hafa yfirvöld látið duga að semja um sjálfviljuga ritskoðun af hálfu fyrirtækjanna.
"Þau svör sem ég hef fengið frá netfyrirtækjunum benda til að þau hafi skilið þau kröftugu skilaboð sem ég sendi þeim. En ef það dugir ekki til mun ég láta lögfræðinga kanna tillögur um lagasetningu og athuga hvort vilji er fyrir henni meðal stjórnmálamannanna í þinginu," segir Sander.
Hans Henrik Jensen, yfirmaður netrannsóknadeildar lögreglunnar, óttast að gott samstarf lögreglunnar við 98% af netfyrirtækjunum í slíkum málum geti verið í hættu verði þau beitt þvingunum.