Osama bin Laden er fimmtugur í dag, þ.e. sé hann enn á lífi. Eitt er víst að talibanar hafa óskað honum langlífi. Lítið hefur heyrst í bin Laden, sem er leiðtogi al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, og af þeim sökum hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort hryðjuverkaleiðtoginn sé allur. Margir leyniþjónustumenn telja hinsvegar að ef bin Laden sé látinn þá væru fréttir þess efnis þegar búnar að birtast á vefsíðum íslamskra uppreisnarmanna.
Talsmaður talibana sagðist í samtali við Reuters-fréttastofuna vera þess fullviss að bin Laden sé á lífi. Mullah Hayatullah Khan sagði jafnframt að háttsettir leiðtogar al-Qaeda hafi reglulega samband við bin Laden. Þetta þykir renna stoðum undir þær kenningar að bin Laden sé í felum í fjalllendinu við landamæri Pakistan og Afganistan.
Khan segir að bardagamenn úr röðum talibana muni koma saman til bænahalda í herbúðum sínum í Afganistan til og minnast þess að í dag eru 50 ár liðin frá fæðingu bin Ladens, en hann fæddist þann 10. mars árið 1957 í borginni Jeddah í Sádi-Arabíu. „Við biðjum að Allah gefi honum 200 ár til viðbótar,“ sagði Khan.