Ræningi í New York í Bandaríkjunum réðst á 101 árs gamla konu, sló hana í andlitið og velti henni um koll áður en hann stakk af með handtöskuna hennar. Frá þessu greindi lögreglan í borginni og þetta sést jafnframt á myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél.
Skömmu síðar réðst sami maður á 85 ára gamla konu. Lögreglan í New York hefur hvatt borgarbúa til þess að láta vita hafi þeir einhverjar upplýsingar um málið.
Árásirnar áttu sér stað í tveimur byggingum í Jamaíka hluta Queens í New York í síðustu viku.
Maðurinn réðst á konuna sem er 101 árs í forstofu íbúðarhúss sem hún býr í um hádegisbil. Á myndum, sem teknar voru úr eftirlitsmyndavél, sést hvernig maðurinn slær konuna í andlitið og hendir henni og göngugrindinni hennar í gólfið.
„Ég missti ekki meðvitund, en mér brá og ég hugsaði með mér: „Hvað gerðist eiginlega?““ sagði konan, Rose Morat. Að sögn lögreglu greip árásarmaðurinn töskuna hennar og stakk af.
Um hálftíma síða réðst sami maður á hina 85 ára gömlu Solange Elizee fyrir utan íbúð hennar. Að sögn lögreglu elti maðurinn hana inn í lyftu, fór út á annarri hæð en hún en hann mætti henni síðar fyrir framan íbúðina sem hún býr í.
Elizee segir að maðurinn hafi spurt hana í lyftunni á hvaða hæð hún væri að fara, og bætt því við að honum þætti gaman að hjálpa gömlu fólki.
En þegar hún ætlaði að fara loka útidyrahurðinni hjá sér hótaði maðurinn henni. Hún segir að hann hafi slegið sig í andlitið og hrint sér. Þá stakk maðurinn einnig af með handtösku konunnar að sögn lögreglu.