Chirac segist ekki gefa kost á sér áfram

Jacques Chirac flytur sjónvarpsávarp sitt í kvöld.
Jacques Chirac flytur sjónvarpsávarp sitt í kvöld. Reuters

Jacques Chirac, forseti Frakklands, lýsti því yfir í sjónvarpsávarpi í kvöld að hann ætli ekki að bjóða sig fram í forsetakosningum, sem fara fram í apríl. „Ég mun ekki óska eftir atkvæðum ykkar fyrir eitt kjörtímabil enn," sagði Chirac, sem setið hefur í embætti í 12 ár. Hann er 74 ára gamall.

Chirac hefur fram að þessu ekki viljað upplýsa um áform sín en almennt var búist við, að hann hygði ekki á framboð. Chirac hefur fram að þessu ekki viljað upplýsa um áform sín en almennt var búist við, að hann hygði ekki á framboð. Chirac hefur verið einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum í Frakklandi í rúmlega 40 ár en hann hefur m.a. gegnt embætti forseta, forsætisráðherra og borgarstjóra Parísarborgar.

Chirac lýsti ekki í ávarpinu yfir stuðningi við neinn þeirra, sem gefið hefur kost á sér í forsetakosningunum í apríl. Hugsanlegt er þó talið, að hann muni síðar lýsa stuðningi við Nicolas Sarkozy, núverandi innanríkisráðherra og forsetaframbjóðanda núverandi stjórnarflokks Frakklands. Sarkozy, sem er 52 ára, hefur naumt forskot á Ségolène Royal, frambjóðanda vinstrimanna og miðjumanninn Francois Bayrou, sem hefur sótt mjög í sig veðrið að undanförnu. Fyrri hluti forsetakosninganna verður 22. apríl en kosið verður á milli þeirra tveggja, sem flest atkvæði fá, 4. maí.

Hvernig sem fer er ljóst, að það verða kynslóðaskipti í frönskum stjórnmálum með brotthvarfi Chirac, sem hefur verið áhrifamikill í stjórnmálum í rúma fjóra áratugi. Erlend ríki munu eflaust minnast hans sem forsetans sem neitaði að styðja innrás Bandaríkjanna inn í Írak árið 2003.

Chriac sagði þjóð sinni í ávarpinu í kvöld að þrátt fyrir að hann hyrfi af vettvangi stjórnmálanna þá væri hann ekki sestur í helgan stein og hann myndi áfram vinna að framrás Frakklands.

Chirac mun láta af embætti þann 16. maí næstkomandi og telja stjórnmálaskýrendur líklegt að hann muni einbeita sér að hugðarefnum sínum, það er umhverfismálum og menningarmálum ríkja sem eru utan Evrópu.

Stjórnmálaferill Chiracs hófst árið 1962 þegar hann varð ráðgjafi Georges Pompidou, þáverandi forsætisráðherra. Hann gegndi fyrst ráðherraembætti árið 1967, var borgarstjóri Parísar í 18 ár, í tvígang forsætisráðherra, fyrst 1974 og síðustu tólf árin hefur hann gegnt embætti forseta. Hann var fyrst kjörinn forseti árið 1995 þegar hann sigraði sósíalistann Lionel Jospin. Sex árum síðar komst Jospin ekki í 2. umferð kosninganna og kosið var þá á milli Chiracs, sem fékk 82%, og hægriöfgamannsins Jean-Marie Le Pen.

Chirac, sem er 22. forseti Frakklands, fæddist 29. nóvember árið 1932 og er afkomandi múrara, smiða og bænda í Correze-héraði í suðvesturhluta landsins. Hann hefur ávallt lagt mikla áherslu á þessi tengsl sín við landsbyggðina. Foreldrar Chiracs bjuggu þó í París og faðir hans var vel stæður kaupsýslumaður.

Fjölskylda Chiracs flúði frá París til Rivíerunnar eftir að þýskir nasistar réðust inn í Frakkland. Undir lok stríðsins tók hann þátt í andspyrnunni gegn nasistum og klippti í sundur símalínur Þjóðverja.

Chirac þótti óstýrilátur unglingur og neitaði í fyrstu að stunda langskólanám eins og foreldrarnir vildu. Á þessum tíma orti hann ljóð og lá yfir bókum. Þegar hann var 15 ára byrjaði hann að læra sanskrít en hætti því og lærði rússnesku, sem hann talar reiprennandi. 17 ára flúði hann París og réð sig á flutningaskip til að sýna að hann vildi ekki ganga menntaveginn.

Þegar hann kom aftur til Parísar hóf hann þó nám í stjórnmálafræði og aðhylltist vinstristefnu. Hann gegndi herþjónustu í Alsír og stundaði síðan nám í stjórnsýsluskólanum Ecole Nationale d'Administration.

Chirac kvæntist Bernardette Chodron de Courcel, sem er af frönskum aðalsættum, árið 1956. Þau eiga tvær uppkomnar dætur og önnur þeirra er helsti fjölmiðlaráðgjafi Chiracs en hin hefur dvalist á stofnunum í mörg ár en hún hefur glímt við anorexíu um árabil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert