Hugo Chavez: Kapítalisminn á leiðinni til helvítis

Hugo Chavez kallar ekki allt ömmu sína
Hugo Chavez kallar ekki allt ömmu sína Reuters

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur gagnrýnt Bandaríkin harðlega á ferð sinni um rómönsku Ameríku. Chavez, sem er staddur í Bólivíu, sagði að kapítalisminn væri á „leiðinni til helvítis“.

Chavez lagði á það áherslu að á sama tíma og Venesúela aðstoðar Bolivíu og setur milljarða dollara í hagkerfi landsins þá hafa Bandaríkin dregið úr sinni aðstoð, segir á fréttavef BBC.

George W. Bush Bandaríkjaforseti, sem er einnig á ferðalagi um rómönsku Ameríku, hefur ekki viljað tjá sig um ferðalag Chavez um sama svæði.

„Þeir sem vilja fara beina leið til helvítis, þeir geta fylgt kapítalismanum,“ sagði Chavez í bænum Trinidad í Bólivíu.

„Og þau okkar sem vilja búa til himnaríki á jörðu, við getum fylgt sósíalisma,“ bætti hann við.

Þúsundir hafa misst heimili sín í miklum flóðum í Bólivíu auk þess sem búfé hefur drukknað. Aðstoð Venesúela nemur 15 milljónum dala og upphæðin er tífalt hærri en Bandaríkjamenn buðu.

Þá sendi Venesúela jafnframt hjálparstarfsmenn til landsins sem voru viðstaddir þegar Chavez flutti ræðu sína á flugbraut í bænum.

Á meðan dvöl hans hefur staðið í Bólivíu hefur Chavez heitið íbúum landsins einum milljarði dala í verkefni sem tengjast olíuvinnslu og rekstri útvarpsstöðva í landinu.

Bush varði gærdeginum í Úrúgvæ þar sem hann ræddi m.a. um það hvernig Bandaríkin vilja hlúa að „velferð manna“ og þá ræddi hann jafnframt um hvernig Bandaríkin ástunda „friðsælan og skilvirkan ríkiserindrekstur“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert