Bandaríkin aðstoða Líbýumenn við gerð kjarnorkuvers

Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýumanna.
Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbýumanna. Reuters

Bandaríkjastjórn ætlar að veita stjórnvöldum í Líbýu aðstoð við að reisa kjarnorkuver, en samkomulag um það verður brátt undirritað. Þing Líbýu, GPC, samþykkti þetta í gær og munu fulltrúar utanríkisráðuneytis landsins undirrita samkomulagið.

Samkvæmt samkomulaginu á að reisa fyrsta kjarnorkuver Líbýu og mun orkan frá því nýtast til raforkuframleiðslu, afsöltunar vatns og rannsókna á sviði geislaefnafræði. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki staðfest þetta fyrirhugaða samkomulag en fréttir af þessu voru færðar Líbýumönnum af fréttastofu þar í landi að nafni Lana.

Líbýskir háskólanemar munu hljóta þjálfun og menntun á sviði kjarnorkutækni í Bandaríkjunum, samkvæmt samkomulaginu. Líbýumenn voru lengi vel sakaðir um að ætla að koma sér upp gereyðingarvopnum en árið 2003 neitaði Muammar Gaddafi, leiðtogi landsins, því alfarið. Í kjölfarið hófust milliríkjaviðræður Bandríkjanna og Líbýu sem lengi hafi verið svarnir óvinir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert