George W. Bush Bandaríkjaforseti þakkaði forseta Kólumbíu, Alvaro Uribe, fyrir stuðning hans í fíkniefnabaráttunni. Bush var staddur í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, í sex klukkustundir, en ferðin var liður í heimsókn hans til fimm ríkja rómönsku Ameríku.
Að minnsta kosti 25 mótmælendur voru handteknir skammt frá þar sem Bush flutti ávarp. Óeirðalögreglumenn notuðu táragas er þeir lentu í átökum við fólk sem mótmælti heimsókn Bush, segir á fréttavef BBC.
Bandaríkjaforsetinn hrósaði því hvernig Uribe hefur tekið á viðskiptum með ólögleg fíkniefni í landinu, en mikið af fíkniefnunum í Kólumbíu er ætlað á Bandaríkjamarkað.
„Ég kann að meta staðfestu þína og ég er stoltur af því að geta kallað þig persónulegan vin, og að geta sagt að þitt land sé bandamaður Bandaríkjanna,“ sagði Bush við Uribe við upphaf blaðamannafundar.
Ásakanir um meint tengsl Uribe við hægri sinnaða uppreisnarmenn í landinu hafa þótt varpað þó nokkrum skugga á heimsókn Bush til Kólumbíu.