Áfrýjunardómstóll í Kaíró, höfuðborg Egyptalands staðfesti í dag fjögurra ára dóm yfir Abdel Kareem Nabil, 22 ára bloggara og fyrrum háskólanema, fyrir að hafa móðgað íslamstrú og forseta landsins, Hosni Mubarak.
Nabil var nemi við Al-Azhar háskólann í Kaíró og hélt úti bloggsíðu þar sem hann skrifaði meðal annars færslur þar sem íhaldssamir múslimar voru gagnrýndir.
Honum var á síðasta ári vísað úr skóla og ákærður fyrir meiðandi ummæli. Hann var svo dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa móðgað Íslam, spámanninn Múhameð og eins árs fangelsi fyrir að hafa skrifað meiðandi gagnrýni um Mubarak.