Hanne Bech Hansen, lögreglustjóri Í Kaupmannahöfn í Danmörku, hefur heimilað að fyrirvaralaus leit verði gerð á fólki í tveimur hverfum borgarinnar í þessari viku í kjölfar átaka mótmælenda gegn niðurrifi Ungdómshússins og lögreglu í síðustu viku. Á undanförnum dögum hafa komið upp nítján tilfelli þar sem lögregla hefur fundið skotvopn, hnífa og smásprengjur á fólki sem hún hefur handtekið í borginni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Heimildin er veitt á grundvelli lögreglulaga um tímabundnar undanþágur frá þeirri reglu að einungis megi leita á fólki sem lögregla hafi rökstuddan grun um að tengist glæpsamlegu athæfi eða áformum um slíkt.
Flemming Steen Munch, talsmaður lögreglunnar, segir slíkar undantekningar hafa verið veittar þrisvar eða fjórum sinnum áður og að þær hafi skilað góðum árangri í því að draga úr vopnaburði.