Kjarnorkustöðin í Bushehr í Íran verður ekki gangsett í september á þessu ári líkt og til hafði staðið og kjarnorkueldsneyti verður ekki flutt þangað frá Rússlandi í þessum mánuði þar sem rússneska fyrirtækið ekki Atomstroiexport hefur ekki fengið umsamdar greiðslur fyrir það. „Atomstroiexport hefur ekki borist umsamdar greiðslur í tvö mánuði ," segir Irina Yesipova, talsmaður fyrirtækisins sem er í eigu rússneska ríkisins. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
„Þetta gerir það að verkum að tímaramminn hefur færst aftur og því verður ekki hægt að opna í september. Við getum einfaldlega ekki gert það og getum við ekki opnað í september getum við heldur ekki afhent eldsneytið samkvæmt upprunalegri tímatöflu heldur.”
Írönsk yfirvöld neita því að þau hafi ekki staðið við umsamdar greiðslur vegna málsins en rússnesk yfirvöld segja að Íranar skuldi tugi milljóna Bandaríkjadollara vegna málsins.
Þá hefur rússnesk fréttastofa það eftir ónefndum en háttsettum embættismanni að yfirvöldum þar í landi finnist Íranar hafa misnotað afstöðu og aðkomu Rússa að kjarnorkumálinu og að Íranar geti ekki leikið sér endalaust að Rússum á grundvelli gamalgróinna tengsla þjóðanna. „Okkur finnst óásættanlegt að Íran eignist kjarnorkusprengju eða að þeir stefni að því,” segir hann.