Ísraelska utanríkisþjónustan hefur kallað sendiherra Ísraels í El Salvador heim í kjölfar þess að hann fannst kófdrukkinn og nakinn fyrir utan sendiráðið fyrir tveimur vikum. Fréttastofan AFP hefur eftir ráðuneytinu að í sextíu ára sögu hafi vissulega komið upp atvik þar sem erindrekar hafi orðið þjóð sinni til skammar, en að þetta sé hins vegar í fyrsta sinn sem sendiherra hagi sér ósæmilega á almannafæri.
Tzuriel Refael var á síðasta ári hækkaður í tign eftir langt starf hjá utanríkisráðuneytinu og gerður að sendiherra í Miðameríkulýðveldinu El Salvador. Lögregla er sögð hafa fundið Refael á lóð sendiráðsins fyrir tveimur vikum, hann mun hafa verið mjög drukkinn og nakinn, utan hvað hann var bundinn á höndum, og með keflaður með gúmmíkúlu í munni. Refael gat þrátt fyrir ölvun sagt lögreglu nafn sína og stöðu.
Traust almennings á ísraelskum yfirvöldum hefur beðið hnekki undanfarin misseri vegna hneyksla og spillingar. Forseti landsins hefur m.a. verið sakaður um kynferðisofbeldi. Þá hefur Ehud Olmert, forsætisráðherra verið sakaður um spillingu og tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.