Wolfgang Schaeuble, innanríkisráðherra Þýskalands, segir að Þjóðverjar muni ekki láta undan hótunum hryðjuverkamanna en íslamskir uppreisnarmenn tengdir al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum hótuðu því í gær að gera árásir á Þýskaland og Austurríki dragi þjóðirnar ekki herlið sitt frá Afganistan.
„Við látum ekki kúga okkur,” segir Schaeuble í samtali við RBB. Hann segir þýsk yfirvöld þó taka yfirlýsinguna af fullri alvöru en að þátttaka Þjóðverja í því a koma á stöðugleika í Afganistan sé hluti af því að bregðast við þeirri ógn.
„Við erum hluti af alþjóðlegu skotmarki. Við eigum ekki að gera okkur þær ranghugmyndir um að við stöndum frammi fyrir minni ógn en Spánverjar, Englendingar og aðrar þjóðir,” sagði hann.
Þjóðverjar hafa á undanförnum mánuðum verið undir miklum þrýstingi Atlantshafsbandalagsins, NATO, um að fjölga í herliði sínu í Afganistan. Þýsk yfirvöld hafa hins vegar ekki látið undan þeim þrýstingi. Á föstudag samþykkti þýska þingið hins vegar þá tillögu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að Þjóðverjar sendi sex Tornado þotur til Afganistan þar sem þær muni sinna könnunar- og eftirlitsflugi fyrir herlið NATO í landinu.